143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[11:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess vanda sem er augljóslega uppi í þinghaldinu þar sem menn hafa að því er virðist gert allt of lítið af því að hlusta hverjir á aðra undanfarna daga og sett dagskrá þingsins alla í alvarlegan hnút. Það eru tiltölulega fáir þingdagar eftir af þessum vetri til að afgreiða mjög mörg og stór mál sem þarfnast vandaðrar umfjöllunar.

Ég hjó eftir því hér í umræðum í morgun að formenn allra stjórnarandstöðuflokkanna lýstu sig reiðubúna til að setjast niður með forustu stjórnarflokkanna og ræða lausnir þar sem yrði sannarlega af hálfu stjórnarandstöðunnar gefið efnislega eftir í málunum. Ég hvet hæstv. forseta til að gera einfaldlega hlé á þingfundinum meðan slíkar samræður fara fram á milli flokkanna. Mér virðist, og það hlýtur eiginlega hverjum manni að vera ljóst, (Forseti hringir.) að umræðunni muni ekkert miða áfram hér í salnum (Forseti hringir.) nema fram fari (Forseti hringir.) einhverjar efnislegar umræður á milli manna áður.