143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[11:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hefja efnislega umræðu sem fyrst — jú, við erum vel til í það og höfum stundað það hér undanfarið. Vandinn hefur bara verið sá að á meðan stjórnarandstaðan hefur verið að leggja fram sáttatillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur — ég held að það séu komnar tvær sem eru á dagskrá þingsins og það hafa líka verð lagðar fram sáttatillögur um málsmeðferð — þá kemur ekkert efnislegt á móti frá ríkisstjórnarflokkunum. Ekki neitt.

Ríkisstjórnarflokkarnir láta ekki einu sinni svo lítið sem vera hér í salnum og svara spurningum stjórnarandstöðunnar. Það er vont, virðulegi forseti, að vera í efnislegri umræðu við fólk sem vill ekkert við mann tala. Hvaða aðferða grípur stjórnarandstaðan þá til? Það er að vekja athygli á málum sínum með öðrum hætti. Það er það sem verið er að gera hér.

Ef hæstv. forseti vill að við förum að ganga til dagskrár er mjög mikilvægt að hann geri enn betur en hann hefur gert í því hingað til að reyna að fá ráðherra til að vera hér til svara, reyna að fá ráðherra til að koma hér upp og sýna þingmönnum þá virðingu að svara spurningum þeirra og reyna líka að fá stjórnarflokkana (Forseti hringir.) til að svara efnislega (Forseti hringir.) þeim sáttatilboðum (Forseti hringir.) sem hafa komið fram.