143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

um fundarstjórn.

[11:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að ræða um fundarstjórn forseta núna en finn mig knúinn til þess eftir að heyra mál hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Ástæðan fyrir ræðum um fundarstjórn forseta á undanförnum dögum er sjálfskaparvíti ríkisstjórnarinnar. Hæstv. utanríkisráðherra var í lófa lagið að draga til baka þann óhróður sem hann setti í greinargerð með tillögu sinni strax og vakin var athygli á honum. Hann kaus að gera það ekki fyrr en tilneyddur á þriðjudagskvöldi. Það kallaði á margar og tugi ræðna hér til að fá hæstv. ráðherra til að sjá ljósið og draga óhróðurinn til baka. Með sama hætti fengum við ekki út úr hæstv. forseta fyrr en í gærkvöldi skýrt fyrirheit um það að í utanríkismálanefnd yrði fjallað um þessa skýrslu og minni hlutinn hefði þar svigrúm til að samþykkja nefndarálit sem kæmi aftur til umræðu. Við höfðum beðið aftur og aftur og aftur um skýringar á því hvernig vinnan gæti orðið um skýrsluna í nefndinni.

Ef stjórnarmeirihluti fer fram með offorsi, býður ekki upp á (Forseti hringir.) samkomulag og ætlar að valta yfir fólk, (Forseti hringir.) kallar það (Forseti hringir.) auðvitað á (Forseti hringir.) að maður (Forseti hringir.) leiti skýringa (Forseti hringir.) úr ræðustól Alþingis.