143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:04]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Í umræðum hér í morgun undir liðnum Óundirbúnar fyrirspurnir, fyrirspurnir til ráðherra ríkisstjórnarinnar, kom loksins einhver skýring á þeim algeru sinnaskiptum sem orðið hafa á hæstv. ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í þessu máli. Það upplýstist nefnilega í máli hæstv. menntamálaráðherra að hann er að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar, að það er skylda ríkisstjórnarinnar í þessu máli að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar og þess vegna hafi verið beygt af leið. Það er út af fyrir sig gott að hæstv. menntamálaráðherra sé búinn að komast að niðurstöðu fyrir hönd þjóðarinnar í þessu máli sem hann lofaði reyndar fyrir kosningar ásamt öðrum að bera undir þjóðina. Orðrétt var kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins þannig að hann ætlaði að bera áframhald viðræðna undir þjóðina. Það sem hann leggur núna til er að slíta viðræðum án samtals, án samráðs við þjóðina.

Hæstv. menntamálaráðherra sagði í sjónvarpsfréttum í gær að ef staðreyndir málsins breyttust áskildi hann sér rétt til þess að skipta um skoðun. Hvaða staðreyndir hafa breyst? var hann spurður. Jú, við sáum það ekki fyrir að í ríkisstjórn yrðu tveir flokkar sem eru jafn einarðlega á móti því að ganga í Evrópusambandið og raun ber vitni. Þetta gæti í sjálfu sér verið skýring ef hún stæðist skoðun vegna þess að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna sátu fyrir svörum blaðamanna eftir að hafa myndað ríkisstjórn sína á Laugarvatni síðastliðið sumar og töluðu þar um, eftir að hafa búið til stjórnarsáttmála, að að sjálfsögðu yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, það ætti auðvitað eftir að tímasetja það en það yrði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu.

Það stenst ekkert skoðun sem fram kom í máli hæstv. ráðherra í gær. Það hefur engin breyting orðið á staðreyndum málsins, ekki bara frá því fyrir kosningar, heldur líka eftir kosningar þegar stjórnarsáttmálinn var samþykktur og lagður fyrir þingflokka ríkisstjórnarinnar.

Nú koma hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hingað upp í ræðustól og segja í tilraun til þess að útskýra sinnaskipti sín og stefnubreytingu og í raun og veru svikin loforð, að það hafi alltaf legið fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri þeirrar skoðunar að hagsmunum þjóðarinnar væri betur borgið utan Evrópusambandsins. Það er enginn að deila við þá um það, en það var einfaldlega ekki það sem þeir sögðu að þeir ætluðu að gera fyrir kosningar.

Þeir hafa líka haldið því fram, það gerði hæstv. innanríkisráðherra hér áðan, að það sé ljóst af skýrslu Hagfræðistofnunar að engar undanþágur væri hægt að fá. Að sjálfsögðu láta talsmenn Sjálfstæðisflokksins alltaf hjá líða að tala um sérlausnir. Það er enga slíka niðurstöðu að finna í skýrslu Hagfræðistofnunar sem hægt er að byggja ákvörðun um að slíta viðræðunum á.

Ef svo væri væri meiri hlutanum í lófa lagið að ljúka viðræðunum. Ef engar undanþágur væri að fá, kæmi það væntanlega í ljós í samningnum. Þá yrði hann að sjálfsögðu felldur af þjóðinni. Hvað hafa menn að óttast í þessum efnum?

Það er auðvitað þannig og það blasir við hverjum sem er að gert hefur verið einhvers konar samkomulag, einhvers konar hrossakaup á milli stjórnarflokkanna og í þeim hrossakaupum er þjóðinni því miður veittur ókeypis kinnhestur.