143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:10]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Það sem ég á við með þessum orðum mínum, hv. þm. Helgi Hjörvar, er að það mun enginn stjórnmálaflokkur, verði þessi ákvörðun, þessi þingsályktunartillaga, samþykkt hér, geta boðið fram með það sem stefnumál í komandi kosningum að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það er tómt mál að tala um. Það var nógu flókið ferli að hefja þessar viðræður til að byrja með. Það hefur svo skaðlegar afleiðingar fyrir trúverðugleika Íslands á alþjóðavettvangi að slíta viðræðum á þennan hátt að það munu a.m.k. líða 15–20 ár, að mati fræðimanna, þangað til það verður aftur raunhæfur kostur. Það verður næsta kynslóð stjórnmálamanna, næsta kynslóð á eftir þeirri sem er nýkomin hingað á Alþingi sem mun mögulega geta boðið upp á þann valkost í samfélagi okkar. (Forseti hringir.) Það er það sem ég á við.