143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:16]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er akkúrat það sem ég hef orðið fyrir svo miklum vonbrigðum með. Mig langaði virkilega að geta rætt efnislega um kosti og galla aðildar út af því að ég eins og svo margir í íslensku samfélagi hef ekki gert upp hug minn. Það sem veldur mér líka áhyggjum í þessu samhengi er að ég hef ekki hugmynd um, ég skil ekki af hverju farið er með þessum asagangi í að ætla að slíta viðræðum án nokkurrar samræðu við almenning í landinu, við kjósendur ríkisstjórnarflokkanna sem vilja fá að kjósa um áframhald.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja hugmynd um af hverju þessi flumbrugangur er. Ég hef enn ekki fengið nein svör og heyri alls konar kenningar og samsæriskenningar sem er mjög vont að séu í gangi í samfélaginu; kenningar um að það sé þrýstingur frá Kína, þetta sé ástæða til að (Forseti hringir.) geta einangrað okkur enn frekar og að síðustu aurarnir úr þrotabúunum fari í hendurnar á réttum aðilum. Það er mjög slæmt að alls konar (Forseti hringir.) sögusagnir séu í gangi. Því væri mjög athyglisvert ef einhverjir gætu gefið (Forseti hringir.) mér svör. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður getur það.