143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:18]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er þetta jafn óskiljanlegt og hv. þm. Birgittu Jónsdóttur. En ég vil ljúka við það sem ég var að tala um áðan að best væri að láta þjóðina ákveða framhaldið. Ég fékk nefnilega frammíkall á leiðinni úr ræðustól áðan frá hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur, en hún spurði: Af hverju studdirðu þá ekki að þetta mál yrði sett í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en samningarnir hófust á síðasta kjörtímabili? Það er góð spurning. Við henni á ég ágætissvar. Það er nefnilega munurinn á þeirri tillögu og þeirri ákvörðun, endanlegur samningur hefði alltaf farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Menn halda því alltaf fram að ekkert land sæki um án þess að ætla að ganga í Evrópusambandið. Ef svo væri lyki samningaviðræðum ekki í öllum aðildarlöndum með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nefnilega alltaf skilinn eftir sá möguleiki að hætta við. (Gripið fram í.)Þess vegna er ferlið með þessum hætti. Þess vegna er mikill munur á tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að slíta viðræðunum (Forseti hringir.) án samtals við þjóðina og því að hefja viðræðurnar á sínum tíma.