143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:21]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög athyglivert vegna þess að í umræðunni í síðustu viku þegar ég hélt ræðu mína um skýrsluna var mjög kallað eftir því að ríkisstjórnarflokkarnir sýndu á spilin um hvert skyldi svo haldið með þetta mál. Menn eru því í algerri mótsögn við sjálfa sig ef þeir eru svo á móti því að ríkisstjórnin leggi fram tillögu um hvernig skuli halda áfram með málið. Það var kallað eftir því hér í þingsalnum, ekki síst af þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar sem héldu ræður á fyrstu dögum umræðunnar um málið. Menn geta einfaldlega flett því upp í þingtíðindum. Þannig var þetta.

Hv. þingmaður gat engin dæmi nefnt um undanþágur né sérsamninga sem fyrrverandi ríkisstjórn náði fram á síðasta kjörtímabili í samningaviðræðum sínum. Það er einfaldlega vegna þess að enginn slíkur árangur lá fyrir. Tíminn var ekki nýttur vel af þeim sem vildu virkilega ganga í Evrópusambandið, þ.e. af fyrrverandi ríkisstjórnarflokkum og stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar úr öðrum flokkum. Ég held að það sé einfaldlega staðreynd sem menn þurfa að halda hér á lofti.