143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[12:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég man ekki eftir því að hafa í seinni tíð og í ekki heldur frá ferli mínum sem fréttamaður — ég var oft þingfréttamaður í þinginu frá miðjum tíunda áratugnum og fram að miðjum síðasta áratugi — að hafa horft á viðtal eða viðtalsbúta þar sem orðið hefur jafn fullkominn umsnúningur á skoðunum manna á jafn skömmum tíma og sýnt var í fréttum ríkissjónvarpsins í gær. Mig rekur ekki minni til þess að hafa horft á svo haldlitlar skýringar á algerri umpólun. Auðvitað er það ekki bara gengisfelling á þeim hæstv. ráðherrum sem um ræðir, heldur á allri stjórnmálastéttinni. Það snertir trúverðugleika stéttarinnar í heild og Alþingis.