143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[12:29]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt af okkar hálfu að halda umræðum áfram í hádeginu þótt við höfum lagt til að hlé yrði gert til að leita samkomulags um meðferð málsins, en látum vera. En það er þá algert lágmark að gagnaðilinn sitji umræðuna líka. Það er ástæða til þess að þakka hæstv. forsætis- og utanríkisráðherra og hæstv. menntamálaráðherra fyrir að vera hér í húsinu, en það er auðvitað algerlega óboðlegt að það sé aðeins 1/3 hluti ríkisstjórnar Íslands á vettvangi þegar rædd er skýrsla ríkisstjórnarinnar um eitthvert stærsta hagsmunamál þjóðarinnar.

Nú veit ég að formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lögmæt forföll, en ég spyr: Hvar eru hinir fimm ráðherrarnir? Þetta varðar málaflokk þeirra allra, hagsmunamat í málaflokkum allra. Ég ítreka að það er sjálfsagt að vera hér í hádeginu og taka þessa umræðu, þótt sáttaleiðin væri nú betri, en það er algert lágmark að ráðherrarnir hunskist til þess að sitja á ráðherrabekknum, virðulegi forseti.