143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

tilhögun þingfundar.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil sérstaklega þakka hæstv. forseta fyrir að höggva á afar erfiðan hnút og stuðla að því að þingið komist aftur á réttan kjöl og við getum haldið umræðunni áfram þannig að sómi sé að fyrir okkur öll og fyrir þingið. Ég þakka honum fyrir atbeina hans með virðingu þingsins að leiðarljósi og lýsi ánægju minni með það samkomulag sem náðst hefur. Ég vil jafnframt nefna sérstaklega að í þeirri sýn sem þar er undir felst að menn vilji gjarnan hittast í nefndaviku, þ.e. forustumenn flokkanna, til að skoða fleti á þeirri efnislegu stöðu sem er í spilunum og möguleika á því að menn geti nálgast þá til farsældar fyrir málið í heild en ekki síður fyrir stjórnmálamenninguna á Íslandi.