143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

tilhögun þingfundar.

[15:09]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil líka lýsa ánægju minni og okkar í Bjartri framtíð með framgöngu hæstv. forseta hér í dag í þessu máli. Þetta er farsæl niðurstaða. Við byrjum umræðu um mjög umdeilda tillögu hæstv. utanríkisráðherra í dag og væntanlega myndast á henni mælendaskrá og umræðunni verður þá frestað þangað til síðar. Ég vil lýsa eindregnum vilja okkar, þingmanna Bjartrar framtíðar, til að nýta þá nefndavikuna til þess að reyna að komast að efnislegri sátt, niðurstöðu um það í hvaða farveg við setjum ESB-málin í framhaldinu. Ég held það sé til mikils að vinna að reyna að ná slíkri sátt og ég held að það sé vel hægt miðað við þær forsendur sem ég sé fyrir hendi.