143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans og í þeim góða anda sáttar sem nú ríkir á síðari hluta þingfundarins vil ég þakka honum fyrir þá miklu áherslu sem hann lagði á að skapa sátt í málinu og að þjóðin væri líka sátt við þingið sitt í málinu.

Nú get ég ekki neytt Sjálfstæðisflokkinn til þess að standa við eigin kosningaloforð. Þó að allir forustumenn flokksins hafi á opinberum vettvangi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðnanna er það þeirra ákvörðun að standa ekki við það. En er það í þágu sáttar að mati hv. þingmanns að ganga enn þá lengra í málinu og ganga að nauðsynjalausu lengra en nokkurt annað ríki hefur nokkru sinni gert og beinlínis afturkalla umsóknina? Verður sátt í samfélaginu um svona stórt mál einhvern tíma reist á því að hv. þingmaður og skoðanabræður hans fái allar sínar ýtrustu kröfur fram?

Ef það á að vera von til þess að sæmileg sátt sé um stöðu svona mikils deilumáls í samfélaginu eins og þetta er, er þá ekki nauðsynlegt að allir aðilar sýni afstöðu hinna skilning? Menn skoði til að mynda möguleika eins og þann að hafa málið einfaldlega í þeirri biðstöðu sem það hefur verið, svissneska leiðin sem kölluð hefur verið, án þess hvorki að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðsluna sem Sjálfstæðisflokkurinn lofaði né afturkalla umsóknina. Verðum við ekki að nýta næstu viku að mati hv. þingmanns til þess að ræða okkur (Forseti hringir.) að einhverri slíkri málamiðlun ef það á að vera einhver von um sátt? Sátt getur varla verið allt mitt og ekkert þitt.