143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:38]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni ágæta ræðu. Í síðari hluta hennar nefndi hann mjög mörg veigamikil rök í umræðunni um kosti og galla aðildar, sem ég er sannfærður um að margir deila með honum skoðunum á og aðrir eru með önnur rök. Þetta eru sjónarmið sem þarf að taka tillit til og ég treysti þjóðinni vel til þess að meta þá kosti og þau atriði sem hv. þingmaður nefnir.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann út í eitt sem var í upphafi ræðu hans og fjallar um svokallaðan ómöguleika, þ.e. að menn sem eru andvígir inngöngu í Evrópusambandið eigi að fara með samningsumboðið og semja við Evrópusambandið um inngöngu. Nú er það þannig, eftir því sem ég kemst næst, að það eru engir stjórnmálamenn í samninganefndinni af hálfu Íslands og voru ekki á síðasta kjörtímabili. Auðvitað er það svo að hæstv. utanríkisráðherra hverju sinni er æðsti yfirmaður samninganefndarinnar þannig séð, en hann hefur, með fullri virðingu fyrir hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, álíka mikinn trúverðugleika í umræðunni og núverandi hæstv. utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, þ.e. að hann, og þeir báðir, hafa mjög fyrir fram gefnar skoðanir.

Er það ekki rétt skilið hjá mér að það eru óháðir opinberir starfsmenn, embættismenn, sem fara með samningamálin fyrir hönd Íslands? Hvaða ómöguleiki er í því að slíkir menn, eins og við sáum til dæmis á síðasta kjörtímabili þar sem óháður erlendur samningamaður var fenginn til þess að leiða hagsmuni Íslands í Icesave-samningaviðræðunum, (Forseti hringir.) fari með samningsumboðið og kynni það fyrir þjóðinni?