143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:46]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég hef verið að glugga í þessa skýrslu og það er eitt málefni sem við höfum kannski ekki rætt mikið en það er sem sagt byggðastefna ESB og hvernig hún gæti nýst Íslendingum ef við mundum ganga í Evrópusambandið. Fjallað er um það málefni á um það bil einni blaðsíðu í skýrslunni þar sem fram kemur hvaða áherslu Ísland leggur á byggðamálin. Mér finnst það samt ekki mjög skýr kafli.

Ég ætla að lesa aðeins upp úr skýrslunni, með leyfi forseta. Þetta er kafli sem ég eiginlega skil ekki neitt í:

„Í skýrslu utanríkisráðuneytisins um samningaviðræður Íslands um aðild að ESB frá apríl 2013 kemur fram að samningskaflinn hafi verið opnaður 18. desember 2012 og að viðræður standi enn yfir. Við opnun samningskaflans voru sett þau viðmið að Íslendingar myndu leggja fyrir framkvæmdastjórnina ítarlega aðgerðaáætlun og tengda tímatöflu sem mæli fyrir um skýr markmið og tímaramma um framkvæmd á samheldnistefnu sambandsins og nauðsynlegar stofnanir. Einnig að Ísland legði fyrir framkvæmdastjórnina áætlun um framkvæmd samheldnistefnu sambandsins. Lokunarviðmið samningskaflans fólu í sér að Ísland taki upp stofnauppsetningu“ — sem ég veit ekki alveg hvað er — „fyrir framkvæmd á samheldnistefnu ESB. Einnig að Ísland leggi fyrir framkvæmdastjórnina áætlun fyrir framkvæmd samheldnistefnu sambandsins. Jafnframt að Ísland ljúki og leggi fyrir framkvæmdastjórnina drög að landsáætlun og aðgerðaáætlun. Þá var farið fram á að Ísland ljúki við og leggi fram drög að hönnun af upplýsingarstjórnunarkerfi (MIS) landsins.“

Eflaust skilja einhverjir þetta betur en ég, en eitt finnst mér mjög mikilvægt, af því að við erum að ræða um þessa skýrslu og ræða um Evrópusambandið, þ.e. að fá skýrsluna sem aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og Samtök atvinnulífsins, eru að láta vinna, vegna þess að þar er verið að tíunda kosti og galla aðildar. Það finnst mér mjög mikilvægt. Þó að þessi skýrsla sé að mörgu leyti góð og gott yfirlit þá vantar t.d. hér upplýsingar um hvaða mögulegu kostir og gallar eru við byggðastefnu ESB. Ég veit að sveitarstjórnarmenn horfa margir til Evrópusambandsins vegna þess að byggðastefna stjórnvalda í gegnum tíðina hefur ekki verið allt of beysin. Mér fyndist því mjög gott að við mundum ræða þá skýrslu áður en við förum að fjalla um hvort við eigum að rifta samningnum. Mér fyndist gott ef því máli væri frestað þannig að við mundum ná að ræða kostina og gallana líka.

Svo er auðvitað mjög skrýtið að vera að ræða þessa skýrslu þegar fyrir liggur að utanríkisráðherra hefur látið dreifa þingsályktunartillögu um að rifta samningnum og engar skýringar fengist á því af hverju þessi flýtir er. Reyndar svaraði hæstv. utanríkisráðherra því í kvöldfréttum á RÚV í gær að komið hefði í ljós hjá ESB að þessi bið gæti ekki verið endalaus og að við yrðum að gefa merki. Ég er svolítið forvitin að vita hvort það er raunverulega þannig að ESB hafi verið að ýta á okkur varðandi þetta mál, því að það eru til dæmi um ríki sem lagt hafa aðildarviðræðurnar til hliðar til skemmri og lengri tíma og ég held að það mætti alveg gera það. Svo finnst mér líka svolítið merkilegt að þessi þingsályktunartillaga, sem enginn átti von á og var ekki á loforðalista stjórnvalda eða í stefnuskrá, skyldi vera fleygt fram hérna áður en eitt einasta frumvarp um skuldaniðurfellingu hefur verið lagt fram, en eins og ég skildi það þá var það stóra kosningaloforðið, ekki svo að skilja að mér hafi endilega fundist það vera gáfulegt kosningaloforð en það var nú einu sinni það sem ég held að Framsóknarflokkurinn hafi verið kosinn út á. Þessi þingsályktunartillaga kemur okkur því öllum að óvörum og mér finnst þetta í raun mjög merkilegt.

Ég ætla nú ekki að ræða meira um þessa skýrslu en ég vona að við munum geta rætt hér í þinginu skýrsluna sem aðilar vinnumarkaðarins eru að láta gera. Ég held að hún sé líka mjög mikilvægt plagg inn í umræðuna.