143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:53]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og útskýringar á þessum kafla. Það er alveg rétt, við erum að fara inn í Evrópusambandið og verðum þá að sætta okkur við ýmislegt sem er í gangi þar. Það er reyndar það sem við erum að gera í dag þegar við innleiðum EES-tilskipanir. Það er líka eflaust rétt að sumt getur verið gott og annað verra.

Ég leyfi mér að benda á að þegar kemur til dæmis að neytendamálum hefur það beinlínis verið mjög gott fyrir neytendur að innleiða tilskipanir EES vegna þess að þær hafa verið mun réttlátari og neytendavænni en það sem stjórnvöld hafa verið að brasa á Íslandi. Inn á milli þvælast líka tilskipanir sem eru ekki endilega góðar og við bara tökum þær upp og höfum ekkert um þær að segja þannig að hluti af þessari ESB-umræðu er líka þessi: Viljum við sitja við borðið? Þá getum við líka rifist um hvort við munum hafa áhrif þar sem lítil þjóð. Það er umræða sem við þurfum að taka.

Mér finnst við líka núna standa frammi fyrir vangaveltunum um hvort við ætlum að vera áfram í EES. Við erum að taka upp mjög mikið af EES-tilskipunum, það er bara þannig. Eða er þá kannski kominn tími til að fara út úr því líka? Mér þætti gaman að heyra hvað hv. þingmanni finnst um það. Erum við þá sátt við stöðuna eins og hún er núna, að vera í EES en ekki í Evrópusambandinu? Erum við að framselja fullmikið vald til Evrópu nú þegar eins og staðan er eða væri kannski betra að við værum við samningaborðið og tækjum þátt í því að móta þau lög og þær reglur sem er verið að búa til í Brussel?