143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið .

320. mál
[15:57]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að við þyrftum kannski að sinna aðeins meiri hagsmunagæslu í Brussel, en ég sá þess nú ekki stað í fjárlögum ársins 2014 að gert sé ráð fyrir því. Það er líka rétt að þegar kemur að innleiðingu tilskipana EES erum við oft kaþólskari en páfinn. Í einhverjum tilfellum hefðum við getað fengið undanþágur. Það er nefnilega til nokkuð sem heitir undanþága í þessu samstarfi.

Ég veit ekki hvort ég á að skilja hv. þingmann þannig að þær þjóðir sem núna eru í Evrópusambandinu stjórni sér ekki sjálfar. Það eru 28 lönd í Evrópusambandinu. Þetta er samstarf fullvalda ríkja. Ef það væri þannig að þær stjórnuðu sér ekki sjálfar mundi ESB liðast í sundur og væri búið að því. Við á Íslandi áttum okkur ekki á því að 28 lönd geti komið sér saman um eitthvað, að menn geti fundið málamiðlun. Ég velti því virkilega fyrir mér stundum hvort við séum yfir höfuð nógu þroskuð til að ganga inn í þetta samstarf fullvalda ríkja.