143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[15:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eftir að hafa kynnt mér skýrslu utanríkisráðherra, um aðildarviðræður við Evrópusambandið, um þróun mála innan sambandsins, að hún styðji stefnu Samfylkingarinnar um að klára aðildarviðræður. Mér finnst augljóst að aðeins með því að klára viðræður fáum við að vita hvaða sérlausnir standa til boða og aðeins á grundvelli aðildarsamnings er mögulegt að meta í raun kosti og galla aðildar.

Skýrslan svarar ekki með fullnægjandi hætti hvaða áhrif upptaka evru hefði á íslenskt efnahagslíf. Í skýrslunni er reyndar bent á að í evrulöndum sé ekki gjaldeyriskreppa, að verðbólga hafi minnkað í löndum með háa verðbólgu við inngöngu í ESB og upptaka evru fæli í sér lægri viðskiptakostnað á Íslandi. Skýrsluhöfundar vísa að öðru leyti í skýrslu Seðlabankans um valkosti Íslands í gjaldeyris- og gengismálum. Skýrsla Seðlabankans er afar ítarleg og upplýsandi og samkvæmt hermireikningi, sem skýrður er í riti Seðlabankans, hefði aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru meðal annars í för með sér að innlendir vextir lækkuðu, innlendur fjármagnsstofn stækkaði og landsframleiðsla á mann hækkaði varanlega. Mikill ávinningur yrði af inngöngu í stærra myntsvæði fyrir lítið land eins og Ísland.

Virðulegi forseti. ASÍ, flest aðildarfélaga Samtaka atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins og nýsköpunarfyrirtæki af ýmsu tagi hafa lýst sig sammála skoðunum og áherslum Samfylkingarinnar í þessu máli. Það hafa margir aðrir gert úr öllum stjórnmálaflokkum og standa þannig að mínu mati með atvinnulífinu í landinu og hag almennings. Með inngöngu í Evrópusambandið er möguleiki á lægri vöxtum, lægri verðbólgu, traustum gjaldmiðli, afnámi verðtryggingar, greiðum aðgangi að markaði rúmlega 500 milljóna manna fyrir íslenskar vörur, möguleiki á aukinni erlendri fjárfestingu og aðkomu að ákvörðunum og stefnumótun Evrópusambandsins, bæði hvað varðar almenna lagasetningu og einnig í mikilvægum málum, svo sem um félagsleg réttindi og í umhverfismálum.

Reiknað hefur verið út að aðeins áhrifin af lægri vöxtum skili heimilum í landinu 100 milljörðum vegna húsnæðislána, ríkinu 45 milljörðum og fyrirtækjum í landinu 65 milljörðum. Þar eru rúmir 200 milljarðar sem nýta mætti á ýmsan hátt til að bæta hag þjóðarinnar.

Skýrslu þeirri sem hér er rædd er ekki aðeins ætlað að undirbyggja umræðu hv. þingmanna og ákvarðanatöku stjórnvalda um málið, heldur er henni einnig ætlað að stuðla að upplýstri umræðu í samfélaginu. Skýrslan lýsir Evrópusambandinu ágætlega og stöðu mála, en í hana vantar mat á því hvort og hvaða ávinning Íslendingar hafa af því að gerast aðilar að Evrópusambandinu og myntbandalaginu í kjölfarið. Þess vegna fagna ég því að skýrslan eigi að fara til umfjöllunar í hv. utanríkismálanefnd og tel mikilvægt að þar verði hún rædd samhliða skýrslu sem Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands er að vinna fyrir aðila vinnumarkaðarins.

Gera má ráð fyrir að farið verði yfir í þeirri skýrslu ávinning af aðild fyrir afnám gjaldeyrishafta, mótun peningamálastefnu, uppbyggingu nýs húsnæðiskerfis, fyrirkomulag inn- og útflutningstolla og með skýrri byggðastefnu, svo að eitthvað sé nefnt til viðbótar því sem ég hef áður nefnt í ræðu minni að ekki sé metið í skýrslu utanríkisráðherra sem unnin var af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands.

Landbúnaðarmál, sjávarútvegsmál og sérlausnir eru ekki einu málin sem nauðsynlegt er að fá niðurstöður í, heldur þarf einnig að fjalla um áhrif ESB á ýmis félagsleg mál á Íslandi og um áhrif Íslendinga innan ESB þegar kemur að lausn alþjóðlegra mála, bæði innan og utan sambandsins.

Á þessu er ekki tekið í skýrslunni sem hér er til umræðu. Ásamt því að ýta undir umræðu í samfélaginu og upplýsingar um á hvaða sviðum lífskjör hér á landi eru lakari en í nágrannalöndunum þarf einnig að ræða umhverfismál, það þarf að ræða fátækt, kvenfrelsi, alþjóðlega glæpastarfsemi og fleira sem tengist félagslegum málefnum og samstarf þjóða innan Evrópusambandsins er um.

Ég tel augljóst að við eigum að klára aðildarviðræðurnar og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Þeir stjórnmálaflokkar sem nú halda um stjórnartaumana eru ekki sama sinnis. Stjórnvöldum er frjálst að vera þessarar skoðunar, en þau eiga ekki að taka það frá fólkinu í landinu að fá að segja sína skoðun á þessu mikla og stóra hagsmunamáli. Þúsundir manna mótmæla nú á hverjum degi fyrirætlan stjórnvalda. Það er von (Forseti hringir.) mín að stjórnvöld hlusti og fallist á að til að tryggja frið um (Forseti hringir.) málið er best að leggja það í dóm þjóðarinnar.