143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hún nefndi að mikilvægt væri að klára viðræðurnar til þess að átta sig á því hvaða sérlausnir fengjust. Nú er mjög ítarlega farið yfir það í skýrslunni hvaða möguleikar eru í því. Ítarlega er farið yfir, held ég, hverja einustu svokölluðu sérlausn eða svokölluðu undanþágu, sérstaklega er varðar sjávarútvegsmálin sem menn hafa talið viðkvæmust. Ég veit að hv. þingmaður hefur kynnt sér skýrsluna mjög vel. Ég hefði áhuga á að vita: Hvað telur hv. þingmaður fullnægjandi? Hvað vill hv. þingmaður fá út úr viðræðunum?

Hv. þingmaður er, eins og flestir sem taka þátt í umræðunni, ekki alveg viss hvort hann vilji fara inn, ég skil hv. þingmann svo, ef það er misskilningur biðst ég velvirðingar á því. Mér hefur fundist það vera afstaða hv. þingmanna Samfylkingarinnar að þeir vilji fá niðurstöðu og taka þá ákvörðun, sem kemur á óvart en allt í góðu. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvaða niðurstöðu vill hv. þingmaður fá? Við getum öll tekið afstöðu til þessa máls nú þegar en hv. þingmaður leggur það upp með þessum hætti.

Hv. þingmaður talar um mikilvægi þess að fara með það í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort fara eigi í aðildarviðræður eða ekki. Ef ég skildi hv. þingmann rétt vill hún að við förum í þjóðaratkvæði til að fá niðurstöðu um hvort við eigum að halda áfram aðildarviðræðunum. — Er það ekki rétt, virðulegi forseti? Ég skildi hv. þingmann þannig.

Ég spyr: Af hverju var það ekki gert á síðasta kjörtímabili þegar hv. þingmaður var með í ríkisstjórnarmeirihlutanum sem fór þá leið að sækja um?