143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á seinni spurningu hv. þingmanns vegna þess að hún er viðaminni og hugsanlega hægt að ná því á tveimur mínútum að svara henni. Það hefur alltaf verið stefna Samfylkingarinnar að þjóðin komi að málinu, að við færum í aðildarviðræðurnar og síðan tæki þjóðin um það ákvörðun hvort við gengjum inn eða ekki á grundvelli aðildarsamnings sem færi í ítarlega kynningu og umræðu í samfélaginu. Það held ég að sé afar mikilvægt. Ég var sammála þeirri leið og ég er ekki sammála því að við hefðum átt að hafa þetta öðruvísi. Ég er enn þeirrar skoðunar að það sé allra besta leiðin að klára viðræðurnar, ná upp á borðið kostum, göllum, góðri umræðu, góðri kynningu og taka síðan afstöðu í málinu.

Staðan er hins vegar þannig að hér eru stjórnvöld sem ekki vilja fara þessa leið. Í stað þess að slíta ferlinu og loka og læsa öllum dyrum hvað varðar aðildarviðræður og inngöngu í Evrópusambandið, og myntbandalagið í kjölfarið þar sem ég tel að ríkir hagsmunir liggi undir, vil ég til vara, ef við getum ekki klárað aðildarviðræðurnar, spyrja þjóðina hvort hún vilji að viðræður haldi áfram og niðurstaða fáist, eða hvort hún telji mögulegt að meta stöðuna á þessum tímapunkti á þann veg að best sé að hætta. Þetta getur ekkert stjórnvald, finnst mér, tekið ákvörðun um. Mér finnst að þjóðin verði að svara þessu, ekki bara vegna þess að þetta er mikið deilumál, heldur vegna þess að það er svo margt þarna undir.