143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:28]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi út af sambandsríki og auknum samruna, sem ég að vísu man ekki eftir að hafa rætt en hefði getað rætt og hef örugglega samt rætt einhvern tímann, er auðvelt fyrir hv. þingmann að kanna til dæmis á internetinu ummæli Angelu Merkel og annarra forustumanna flokka og vilja embættismanna um aukinn samruna og sambandsríki. Til dæmis er hennar flokkur og flestir flokkarnir í EPP mjög á því og eftir því sem ég best veit líka í sósíaldemókratísku flokkagrúppunni að þeir vilji sambandsríki.

Látum það samt liggja milli hluta. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju hv. þingmaður var að tala um viðskiptafrelsi. Hv. þingmaður veit að ESB er ekkert sérstaklega umhugað um viðskiptafrelsi. Það hefur aldrei haft frumkvæði að aðildarviðræðum eða -lotu í GATT eða Alþjóðaviðskiptastofnuninni sem er það batterí sem berst fyrir viðskiptafrelsi fyrir allan heiminn. ESB hefur aldrei verið þar. ESB er tollabandalag, er með mekaníska hugsun, vill halda þessu út af fyrir sig og er ekki mikið að opna markaði sína fyrir öðrum. Það er örugglega einhver misskilningur hjá hv. þingmanni nema ég hafi misskilið hann.

Hann talaði um 6. október 2008, við vitum að reglugerðarumhverfi okkar var evrópskt, við tókum það beint frá ESB. Við vitum að ESB var svo sannarlega í þessum vanda sem ekki var búið að vinna úr og Bandaríkjamenn björguðu þeim aftur. Bandaríkjamenn hafa bjargað Evrópu nokkuð oft, bæði á síðustu öld og þessari. Þeir telja samkvæmt skýrslum Evrópusambandsins að við höfum unnið okkur hratt út úr þessu út af gjaldmiðlinum okkar.

Hv. þingmaður kom inn á nokkuð sem er stórfrétt og verður að upplýsa þing og þjóð um, sérlausnina í sjávarútvegi sem er á borðinu. Hv. þingmaður var síðast í stjórnarmeirihlutanum og það er ekkert um þetta í skýrslu af því að það kláraðist ekki. Hv. þingmaður getur ekki komið hér með hálfkveðna vísu. Hann er (Forseti hringir.) með upplýsingar sem við verðum að fá, virðulegi forseti. Þetta eru mjög nauðsynlegar upplýsingar, (Forseti hringir.) loksins komnar fram sérlausnir.