143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst að sameiginlegu hugðarefni okkar hv. þingmanns, viðskiptafrelsinu. Það er ekki flóknara en svo að lönd Evrópusambandsins eru helstu markaðssvæði okkar og þangað flytjum við mest af útflutningi okkar. Það að hafa annan gjaldmiðil en helstu viðskiptalönd manns er viðskiptahindrun í sjálfu sér. Það eykur mjög viðskiptakostnað og dregur úr þeim viðskiptum sem ella væru milli okkar (Gripið fram í.) og helstu útflutningslanda. Með því að verða fullur þátttakandi í samstarfinu og aðili að myntsamstarfinu fella menn niður þessar viðskiptahindranir, auka viðskiptafrelsið við helstu markaðssvæði sín, auka útflutningstekjur Íslands og um þetta má lesa meðal annars í skýrslu um Seðlabanka Íslands, þingmanninum til fróðleiks.

Hvað varðar sérlausn í sjávarútvegsmálum er það bara þannig að þegar Ísland birtir samningsafstöðu sína í sjávarútvegsmálum, sem ég tel að við eigum að gera eins fljótt og við verður komið og hún er svo að segja tilbúin, bregst Evrópusambandið við. Það er út af fyrir sig rétt að varanlegar undanþágur eru ekki í boði, eins og orðhengilshátturinn kallar það, en til að mynda í landbúnaðinum í Finnlandi varð sú sérlausn að þar gilda sérstakar reglur um landbúnað norðan tiltekinnar breiddargráðu. Það er ekki varanleg sérlausn vegna þess að hún byggir á því að þar er kalt, þar er oft dimmt og þar sprettur ekki mjög mikið. Meðan þessi skilyrði eru fyrir hendi njóta Finnar þessarar sérlausnar.

Ég fullyrði að Evrópusambandið hefur ekki lagt upp í þann leiðangur sem aðildarviðræður við Ísland (Forseti hringir.) eru nema að hafa í huga sérlausn í grundvallarhagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, sjávarútvegi, (Forseti hringir.) sem hún teldi nægilega góða til þess að Íslendingar — upplýst fólk — (Forseti hringir.) mundu samþykkja hana í þjóðaratkvæðagreiðslu.