143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

aðildarviðræður við Evrópusambandið.

320. mál
[16:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. 7. þm. Reykv. s. Hv. þingmaður nefndi að við gætum alveg sjálf tekið til í okkar eigin tollaumhverfi. Nú hefur verið talað um þetta svolítið lengi og þetta kemur iðulega upp í sambandi við umræðuna um Evrópusambandið en hins vegar virðist ekkert gerast. Ég man eftir þessari umræðu hreinlega frá barnsaldri, get svo svarið það. Þótt það sé kannski ekkert ægilega langt síðan eru það samt áratugir. Ég velti fyrir mér hvað hv. þingmaður telji þurfa til þess að það sé raunverulega gengið í það að endurskoða tollaumhverfi Íslands með það að markmiði að minnka tollana og þá með þeim hætti að það mundi auka viðskiptafrelsi Íslands enn þá meira erlendis.