143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:03]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að spyrja aftur um flýtinn. Tillagan er lögð hér fram áður en umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar er lokið. Efnt er til kvöldfunda og næturfunda alla þessa viku til að ræða skýrslu sem átti að vera grunnur efnislegrar umræðu og átti samkvæmt stjórnarsáttmála að kynna þjóðinni. Hún verður ekki kynnt þjóðinni að því er ég best veit með neinum sérstökum hætti og ríkisstjórnin er þegar búin að gera upp hug sinn áður en hún er búin að lesa skýrsluna.

Ég hlýt þess vegna að spyrja: Hvað réttlætir þetta óðagot, hvað réttlætir þennan flýti? Hver er ástæðan fyrir því að verið er að keyra þetta mál fram af slíkri hörku og af slíkri óbilgirni sem raun ber vitni og við höfum fengið að sjá hér á dagskrá þingsins alla undangengna viku?