143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir framsöguna. Nú liggur það fyrir, eins og komið hefur fram nú þegar, bæði í opinberri umræðu og umræðum hér á þingi, að tillaga sú sem hæstv. ráðherra mælti fyrir kemur mörgum á óvart í ljósi þeirra orða sem féllu fyrir kosningar, bæði af hálfu forustumanna og hæstv. ráðherra Sjálfstæðisflokksins en líka af hálfu forustumanna Framsóknarflokksins sem ræddu um þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.

Mig langar að inna hæstv. ráðherra eftir viðhorfi hans í þessum málum. Enn fremur spyr ég, í ljósi þeirra krafna sem uppi eru í samfélaginu um að þetta mál verði á einhvern hátt sett í hendur þjóðarinnar, hvað honum finnst þá um þá tillögu sem við í (Forseti hringir.) Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram, (Forseti hringir.) sem snýst um að gera formlegt hlé um leið og efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.