143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Gallinn við tillögu Vinstri grænna er kannski sá að þar er gert ráð fyrir mögulega óendanlegu hléi á þessu verkefni öllu saman. Það held ég að sé ekki gott. Það er ekki gott fyrir okkur, það er ekki gott fyrir umræðuna á Íslandi, (Gripið fram í.) það er ekki eftirspurn eftir því hjá Evrópusambandinu, heyrðum við á fjölmiðlafundi — vill hv. þingmaður fá orðið? — ég held að það sé ekki ákjósanlegt til að hafa hlutina skýra.

Mun Evrópusambandið hverfa úr umræðu á Íslandi? Það held ég ekki. Það mundi ekki gera það heldur þó að við mundum ganga í Evrópusambandið. Við heyrum það nú, þegar við erum á flakki um Evrópu eða í heimsókn í öðrum Evrópuríkjum, að þar er fátt meira rætt en Evrópusambandið.

Við þurfum hins vegar ákveðinn skýrleika og ákveðna stefnu í þessu. Ríkisstjórnin hefur umboð til þess líkt og fyrri ríkisstjórn taldi sig hafa umboð til að sækja um, alla vega einn flokkur. Og við það situr, held ég.