143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:10]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tvennt í upphafi, meðan ég man. Í fyrsta lagi er mjög mikilvægt að halda því til haga vegna fríverslunarsamninga að ef við gerumst aðilar að ESB tökum við upp alla þá fríverslunarsamninga sem Evrópusambandið gerir við önnur ríki. Þar er t.d. mjög brýnt hagsmunamál sem við höfum reynt lengi að fá í gegn á Íslandi, að gera fríverslunarsamning við Bandaríkin og mundi vera til mikilla hagsbóta fyrir Íslendinga að gerast aðilar að þeim fríverslunarsamningi í gegnum aðild að ESB.

Þetta vildi ég sagt hafa og í öðru lagi um skoðanakannanir. Það var rakið ágætlega í Fréttablaðinu í gær að þær hafa verið alla vega á undanförnum áratug, fylgi stundum mikið við ESB og stundum lítið. En þessi fullyrðing; hag okkar betur borgið utan ESB. Það hafa komið fjölmargar skýrslur út á undanförnum árum, m.a. um gjaldmiðilsmál, McKinsey-skýrslan um litla framleiðni á Íslandi, og atvinnulífið hefur gefið út efni, líka norskar skýrslur. Það er margt sem bendir til þess (Forseti hringir.) að hag okkar væri einmitt betur borgið innan ESB. Þetta er fullyrðing sem ég hegg eftir og ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: (Forseti hringir.) Hvað skýrslur, hvaða mat, hvaða greiningar búa að baki þeirri fullyrðingu (Forseti hringir.) að hag okkar sé betur borgið utan ESB?