143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru ekki einungis ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sem eru gersamlega að svíkja fyrirheit sín við kjósendur. Hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson gaf þjóðinni og kjósendum öllum eindregin fyrirheit um að treysta ætti þjóðinni fyrir ákvörðunum í stærstu málum. Þjóðin vill fá að taka þessa ákvörðun. Skoðanakannanir sýna okkur að mikill meiri hluti kjósenda vill ljúka viðræðunum og vill fá að kjósa um niðurstöðuna. Hæstv. ráðherra svíkur það fyrirheit sitt um að þjóðaratkvæðagreiðslur eigi að fá að hafa hér ríkara vægi í íslensku samfélagi. Hann svíkur líka fyrirheit sitt um það að stuðla að aukinni sátt í íslensku samfélagi, því að hann hefur umfram aðra ráðherra í ríkisstjórn Íslands sagt í sundur friðinn og efnt til hörðustu deilna í (Forseti hringir.) íslenskum stjórnmálum um margra missira skeið.

Ég ítreka hvatningu mína til ráðherrans (Forseti hringir.) um að draga tillögu sína til baka.