143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:31]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ekki gera lítið úr samkomulagsvilja hv. þingmanns en ég verð þó að segja að það er nokkur asi á honum þegar hann talar um samkomulag um efnislega niðurstöðu á næstu dögum. Ég vonast hins vegar til þess að við getum náð samstöðu um málsmeðferð og framgang mála hér á næstunni þó að við stöndum frammi fyrir því að það er ansi djúp gjá milli manna hvað varðar hina endanlegu niðurstöðu, að ég hygg.

Það var eitt atriði sem ég ætlaði að nefna sérstaklega í andsvari mínu við ræðu hv. þingmanns. Það lýtur að sjávarútvegsmálum. Nú tel ég eins og mjög margir þingmenn að það sé miklu fleira en bara sjávarútvegsmálin ein og sér sem skipti máli í þessu sambandi, en þau hafa eðlilega fengið nokkra athygli vegna þess að gert hefur verið ráð fyrir, og það gerði hv. þingmaður í ræðu sinni, að unnt verði að finna sérlausnir sem komi til móts við hagsmuni Íslendinga í þessum efnum.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Árni Páll Árnason, sem átti sæti í ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili og kom að þessum málum á töluvert mörgum stigum, telji að fram hafi komið á kjörtímabilinu eitthvað sem hönd á festir, eitthvað annað en almennar kurteisisyfirlýsingar um að við hlytum að komast að einhverri niðurstöðu sem kæmi til móts við Íslendinga. Var eitthvað annað en almennt tal af þessu tagi, eitthvað sem hönd á festir sem gaf honum vísbendingu um að Evrópusambandið mundi víkja frá meginreglum sínum til koma til móts við Íslendinga?