143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:40]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mun nýta tækifærið hér til að fara aðeins yfir þá tillögu sem við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram, sem kemur í kjölfar tillögu hæstv. utanríkisráðherra. Mig langar þó að byrja á því að ræða stuttlega um þá skýrslu sem hefur verið hér til umræðu og ég ræddi í ræðu. Ég vil nefna það í upphafi, í ljósi þess að henni hefur nú verið vísað til hv. utanríkismálanefndar, að ég geri að sjálfsögðu ráð fyrir því að þar verði tekin ítarleg efnisleg umræða.

Ég vil rifja upp þær athugasemdir sem ég kom fram með um skýrsluna. Vissulega skipta hagsmunir Íslands hvað varðar sjávarútveg, landbúnað og fleiri atriði miklu þegar spurt er um aðild að Evrópusambandinu, en mér finnst líka og ekki síður mikilvægt að við nálgumst þá spurningu út frá eðli samstarfsins innan Evrópusambandsins og hvort við sem þjóð séum reiðubúin að taka þátt í því samstarfi með þeim kostum og göllum sem því fylgja. Ég vona að umræðan innan hv. nefndar verði á þeim nótum, þar verði velt upp þeim prinsippum sem gilda í Evrópusambandinu í samstarfi þjóða þar innan húss.

Ég og margir félaga minna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum verið mjög gagnrýnin, líkt og systurflokkar okkar í Evrópu, á þau sjónarmið sem hafa ráðið ríkjum í efnahagsstefnu sambandsins, sérstaklega síðustu tvo áratugi. Margir hafa sett fram þá skoðun að viðbrögð Evrópusambandsins og framkvæmdastjórnar ESB við þeirri kreppu sem nú gengur þar yfir séu í raun og veru angi af sömu hugmyndafræði og nýtt var til að byggja upp það kerfi, hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar. Hún hefur því miður skilað sér í ákveðnum merkjum um að ójöfnuður sé að aukast sem og ákveðin félagsleg vandamál. Mér finnst mikilvægt að sú félagslega vídd verði rædd innan hv. utanríkismálanefndar.

Þá vík ég að þeirri tillögu sem við höfum lagt fram. Eins og ég sagði í upphafi og hef raunar sagt áður, leggjum við hana fram í kjölfar þess að hæstv. utanríkisráðherra leggur fram sína tillögu og í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram af hálfu forustumanna stjórnarflokkanna, þar sem orðið „ómöguleiki“ hefur komið talsvert við sögu. Það sé ómöguleiki í því að ríkisstjórn þar sem báðir stjórnarflokkar eru á móti aðild að Evrópusambandinu geti leitt samninga til lykta.

Nú vil ég segja það fyrst að þetta hefði mönnum kannski átt að vera ljóst fyrir kosningar þegar þeir töluðu fyrir því að hér færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarviðræðurnar. Ég hjó eftir því að hv. þm. Birgir Ármannsson, sem mætti hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni í sjónvarpssal, orðaði þetta einhvern veginn þannig að þó að legið hefði fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti aðild að Evrópusambandinu hefði þessi ómöguleiki fyrst orðið til í samkomulagi þeirra tveggja flokka sem mynda ríkisstjórnina, þ.e. í pólitísku samkomulagi flokkanna tveggja.

Ég tel að hægt sé að líta svo á að stjórnmálamenn geti leitt slíkar umræður til lykta þrátt fyrir að vera á móti Evrópusambandsaðild, ég tel að það snúist um annars vegar að stjórnmálamenn geti leitt slíkt ferli til lykta faglega en samt haft sína pólitísku skoðun á því. En gott og vel, við erum ekki sammála um það, og þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri grænna fram eins konar málamiðlunartillögu sem segir: Gott og vel, það er hlé á viðræðum. Við getum staðfest það hlé, en um leið leggjum við til að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á kjörtímabilinu til að skýra afstöðu þjóðarinnar og að staðið verði við þau fyrirheit að leitað verði leiðsagnar þjóðarinnar um hvert eigi að fara. Við lítum á það ekki bara sem spurningu um afstöðu okkar til Evrópusambandsins heldur spurningu um afstöðu okkar til lýðræðisins og hvernig við viljum nýta lýðræðislegar aðferðir til að draga fram leiðsögn þjóðarinnar í einstökum málum á borð við þetta sem vissulega er mjög stórt.

Það er áhugavert í því samhengi að nú starfar ágæt stjórnarskrárnefnd á vegum forsætisráðuneytis þar sem þetta er eitt af forgangsmálunum, þ.e. hvernig eigi nákvæmlega að koma þjóðaratkvæðagreiðslu með virkum hætti í stjórnarskrá. Miðað við þær umræður sem þar hafa orðið undrast ég í raun og veru að stjórnarflokkarnir geri það ekki sjálfir að tillögu sinni, þ.e. láti slíka þjóðaratkvæðagreiðslu fara fram, standi þannig við sín fyrirheit og leitað verði leiðsagnar þjóðarinnar.

Þessi tillaga rímar við þær landsfundarsamþykktir sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur gert allt frá árinu 2009 þegar landsfundur Vinstri grænna áréttaði andstöðu sína við Evrópusambandsaðild, m.a. út frá þeim forsendum sem ég hef hér nefnt, þ.e. að markaðshagsmunir ráði of miklu um stefnu sambandsins almennt. Þá var það orðið þannig að aðild Íslands ætti að leiða til lykta í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Síðan hefur verið ályktað um þetta á fleiri landsfundum, nú síðast 2013, þar sem raunar varð niðurstaða landsfundar að ljúka ætti aðildarviðræðum innan árs frá kosningum og þjóðin ætti að kjósa um niðurstöðu viðræðna. Sú tillaga sem við leggjum hér fram miðast auðvitað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Nú liggur fyrir að viðræðum verður ekki lokið í bráð, vilji stjórnarflokkanna liggur fyrir. En með tillögunni viljum við leggja fram einhverja lausn sem við teljum að geti sætt ólík sjónarmið og um leið brugðist við þeirri kröfu sem endurómar í samfélaginu, endurómar í þeim undirskriftarlistum sem staðið er fyrir úti í samfélaginu og sýna í raun og veru að fólk er mjög áfjáð í að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri um þetta mál.

Sú hugmynd að þetta mál væri eitt af þeim sem væri best að leita til þjóðarinnar um er náttúrlega ekki ný af nálinni og við hana hefur verið vaxandi stuðningur á undanförnum árum eftir því sem Evrópusambandið hefur hér orðið fyrirferðarmeira, má segja, í opinberri umræðu. Það liggur líka fyrir að Evrópusambandið er ekki eitthvert einhlítt fyrirbæri, það er breytilegt og aðstæður þar hafa að mörgu leyti breyst á síðastliðnum árum. Það er eðlilegt í samstarfi þjóða þar sem stjórnmálaástandið breytist stöðugt og nýjar áherslur verða til, það er fullkomlega eðlilegt. Eigi að síður held ég að þessi spurning eigi ekki eftir að fara neitt. Og eins og ég sagði áðan í andsvörum mínum við hæstv. utanríkisráðherra, þó að samþykkt væri á þingi að slíta viðræðum með þeim hætti sem hæstv. ráðherra hefur lagt til tel ég ekki að spurningin fari neitt frá íslensku þjóðinni. Ég tel hins vegar að sú tillaga sem við höfum hér lagt fram geri atlögu að því að við tökumst á við það.

Við sem flytjum tillöguna teljum einnig að samskipti Íslands og ESB séu að mörgu leyti á tímamótum. Vissulega er Evrópusambandið mikilvægur samstarfsaðili okkar Íslendinga. EES-samningurinn sem Ísland hefur verið aðili að í um 20 ár er mjög umfangsmikill, nær til margra sviða og skuldbindingar okkar samkvæmt honum hafa orðið æ umfangsmeiri í tímans rás. Og eins og hv. þingmenn vita sem taka þátt í störfum þingsins koma fjöldamargar ákvarðanir hér inn á borð hv. þingmanna þar sem auðvitað er spurt hvað við höfum nákvæmlega um málið að segja. Þar hafa vissulega komið fram gild sjónarmið og ekki síst í ljósi þess að þjóðin var náttúrlega aldrei spurð um afstöðu sína til EES-samningsins. Það hefði nú kannski verið góð hugmynd á sínum tíma.

En ég held því líka til haga að viðhorf okkar til þjóðaratkvæðagreiðslu og beins lýðræðis hafa breyst mjög mikið, ekki bara frá því að EES-samningurinn var samþykktur heldur líka á síðustu árum. Það á ekki bara við um Ísland, það er hluti af mun víðtækari þróun. Í EES-samningnum felst umtalsvert framsal ríkisvalds, ef við getum orðað það svo, og við höfum öll orðið vör við það að nýjar ákvarðanir innan EES-samnings reyna á þanþol stjórnarskrárinnar gagnvart honum.

Síðan erum við að sjálfsögðu líka í mjög umfangsmikilli samvinnu á grundvelli Schengen-samstarfsins. Það er líka því marki brennt að um það voru ekki sérstaklega greidd atkvæði af þjóðinni. Í ljósi alls þessa og í ljósi þess mikla samstarfs sem við erum í við þjóðir Evrópusambandsins teljum við að það skipti máli að við reynum að leiða þetta mál til lykta, að við leitum eftir leiðsögn þjóðarinnar og það er ekkert einhlítt hvernig það má gera. Við getum þess í greinargerð að þar þarf ekki endilega að spyrja bara einnar spurningar, þar er hægt að spyrja fleiri spurninga. Þannig teljum við að við getum fundið þessari umræðu ábyrgan og ásættanlegan farveg, en þá reynir líka á hv. þingmenn að þeir standi fyrir upplýstri umræðu um málin til að stuðla að því að við getum komið (Forseti hringir.) þessu máli úr átakafarvegi og í farveg þar sem við getum sameinast um að fá fram leiðsögn þjóðarinnar um framhaldið.