143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:52]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og fyrir að vera til. Ég þakka líka hv. þingmanni jákvæð viðbrögð við þessari tillögu og ég er ánægð að heyra hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar, segja hér að þessi tillaga muni fá góða og efnislega meðferð í hv. utanríkismálanefnd því að ég tel, eins og ég sagði í ræðu minni, að þarna sé komin tillaga sem ætlað er að minnsta kosti að leiða fram einhvers konar sátt um mál sem hefur verið í miklum átakafarvegi.

Hvað varðar spurningu hv. þingmanns er það svo að ég gegndi embætti mennta- og menningarmálaráðherra og á sviði mennta, rannsókna og vísinda hefur Ísland verið mjög virkur þátttakandi í öllu Evrópusamstarfi þannig að ekki get ég sagt að þessi umsókn hafi með beinum hætti tengst því ráðuneyti sem ég fékk að veita forstöðu á þessum tíma.

Hins vegar ber því ekki að leyna að mörg okkar töldu að viðræðurnar mundu ganga hraðar fyrir sig en raun bar vitni. Eins og skýrt kemur fram í nefndaráliti meiri hluta utanríkismálanefndar 2009 áttuðum við okkur þó alveg á því að ferlið var orðið annað en þegar til að mynda Noregur sótti um aðild. Þó bundum við ákveðnar væntingar við að þetta ferli mundi taka skemmri tíma í ljósi þess að við værum aðilar að EES-samningnum, ólíkt mörgum þeirra ríkja sem hafa sótt um aðild að Evrópusambandinu á síðari árum.

Það er vissulega rétt að að sumu leyti tók þetta ferli lengri tíma — hv. þingmaður spyr hvort það geti stafað af eindreginni andstöðu annars flokksins við inngöngu í Evrópusambandið. Ég ætla ekki að leiða líkur að því, en það er mín trúa að það ætti ekki að þurfa að reynast vandamál stjórnmálamanna sem eru andstæðingar ESB að vinna eigi að síður að niðurstöðum í slíku aðildarferli.