143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:09]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birgir Ármannsson talaði um hræðsluáróður sem hefði verið notaður. Mig langaði að spyrja hv. þingmann út í annað sem mér sýnist vera hræðsluáróður en kannski hv. þingmaður geti frætt mig um það. Það er sú grýla að þetta séu aðlögunarviðræður en ekki samningaviðræður, þ.e. að með því að standa í viðræðum við Evrópusambandið séum við að aðlagast því. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti nefnt mér einhver lög eða einhverja reglugerð sem Ísland hefur tekið upp vegna þessara viðræðna, sem við hefðum ekki þurft að taka upp í gegnum EES eða viljað taka upp af sjálfsdáðum.