143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú verður auðvitað að horfa til þess að af 35 köflum, þar af 33 sem að einhverju leyti voru sérstakir viðræðukaflar, hafði aðeins verið lokið við 11 þegar gert var hlé á viðræðunum. Þar var fyrst og fremst um að ræða svið þar sem við höfum þegar undirgengist regluverk Evrópusambandsins í gegnum EES-samninginn þannig að ég held að við höfum ekki enn þá verið komin á þann stað að það væri farið að reyna mikið á þetta. Hins vegar höfðu komið fram kröfur á ákveðnum sviðum um að við aðlöguðum löggjöf okkar að þeirra og verð ég að vísa til texta skýrslunnar hvað það varðar.

Hins vegar er ekki vafi í mínum huga að þegar ríki sækir um aðild að Evrópusambandinu er það vegna þess að ríkið ætlar að ganga í Evrópusambandið eins og það er, ekki öfugt. Það er ekki þannig að Evrópusambandið sé að laga sig að nýjum ríkjum heldur ganga þau í sambandið eins og það er, taka upp „acquis communautaire“, eins og það er kallað, regluverk Evrópusambandsins. Grundvallarforsenda þess að menn geti fengið aðild (Forseti hringir.) er það að menn undirgangist þetta regluverk en ekki öfugt.