143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:13]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni að sumt sem kemur frá Evrópusambandinu eru ágætishugmyndir og fínt að taka þær upp í íslenska löggjöf þegar það á við og þar sem það á við. Í sumum tilvikum erum við ekki með mikið svigrúm til að velja vegna þess að við eigum aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og tökum þar með þátt í innri markaðnum og regluverki sem því tengist. Ég verð hins vegar að segja að það per se finnst mér ekki rök fyrir því að við eigum að gleypa allan pakkann, þó að við tökum hluta hans nú þegar í dag.

Ég vil jafnframt leggja áherslu á að af hálfu Evrópusambandsins sem slíks er alltaf lögð grundvallaráhersla á að um sé að ræða aðlögunarferli, aðildarferli en ekki eiginlegt samningaferli. Mér finnst það koma mjög skýrt fram í þeirri skýrslu sem liggur fyrir frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að þetta eru ekki hefðbundnar samningaviðræður tveggja jafnsettra aðila (Forseti hringir.) vegna þess að annar óskar eftir að verða aðili að hinum.