143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður komst ekki að aðalefni spurningar minnar spyr ég hvers vegna ríkisstjórnin virðist vera að rífa í einhvern neyðarhemil til að koma okkur út úr þessum viðræðum sem allra fyrst með því að slíta þeim í stað þess að gera hlé. Mig langar þá bara að lesa tillögu þannig að það fari ekkert á milli mála að ég er ekkert að leika mér með eitthvert orðalag, þetta er bara svona.

Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Gert verður hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verður lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni. Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Í tillögugreininni segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að draga til baka umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu. Jafnframt ályktar Alþingi að ekki skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu á nýjan leik án þess að fyrst fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla …“

Þarna er grundvallarmunur á því sem stendur í stjórnarsáttmálanum og því sem stendur í tillögugreininni. Ég vil bara spyrja hv. þingmann, vegna þess að nú hefur þessi kynning ekki farið fram fyrir þjóðinni, (Forseti hringir.) umræðan hefur ekki átt sér stað: Hverju hefur ríkisstjórnin komist að sem við hin vitum ekki, sem veldur því að menn ganga svona mikið lengra í tillögugreininni?