143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:18]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Talandi um asa og talandi um neyðarhemil þá verðum við að horfast í augu við að í dag eru um það bil níu mánuðir frá síðustu kosningum og frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum, þannig að ekki var um að ræða það að menn væru að grípa í neyðarhemil með því að slíta viðræðum.

Eins og hv. þingmaður þekkir ákvað síðasta ríkisstjórn í janúar á síðasta ári, 2013, að hætta (Gripið fram í.) viðræðum um nýja kafla, að opna ekki nýja kafla, láta staðar numið þar sem þar var fram komið. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum í maílok 2013 var fljótlega tekin ákvörðun um að láta það hlé, ef við getum orðað það svo, ná til allra sviða.

Síðan hafa í millitíðinni átt sér stað umræður, þessi skýrsla hefur verið gerð. Menn leggja fram tillögu núna sem á eftir að fá þinglega meðferð, sem við vitum ekki nákvæmlega hvernig (Forseti hringir.) verður útfærð, en í þessu er enginn að tala um neitt neyðarástand og það er ástæðulaust að tala um asa.