143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:24]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Möguleikinn á að gera hlé er alltaf til staðar og það er, má segja, það ástand sem er fyrir hendi í dag.

Varðandi flýti og asa verð ég að minna á að við erum eingöngu í upphafi fyrri umræðu um þingsályktunartillöguna og ljóst að mikil vinna á eftir að fara fram áður en menn komast á þann tímapunkt að taka ákvörðun í málinu. Eins og hv. þingmenn þekkja er það auðvitað þingið sem tekur ákvörðun í þessu tilviki, ríkisstjórnin gerir tillögu, þingið tekur hana til meðferðar og kemst að niðurstöðu.

Við getum alveg eins snúið þessu við, þó að mér sé svo sem ekkert vel við að líkja okkur í núverandi meiri hluta við síðasta meiri hluta, það mál þegar sótt var um aðild sumarið 2009. Það bar að með þeim hætti að utanríkisráðherra kom inn í þingið með stuttaralega þingsályktunartillögu um að sækja skyldi um aðild, ekki um að kanna skyldi eða fara í undirbúning eða athugun (Forseti hringir.) á því hvort sækja ætti um aðild, heldur var bara sagt: Við sækjum um aðild. Og svo fóru menn í vinnu út frá (Forseti hringir.) því sem leiddi til tiltekinnar niðurstöðu. Það má alveg líkja þessu með sínum hætti við þá vinnu.