143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar fyrst varðandi umræðuna um hugsanlega aðlögun Íslendinga að ESB á samningstímanum að benda hv. þm. Birgi Ármannssyni á að gert var skýrt samkomulag milli viðræðuhópanna, Evrópusambandsins og Íslands, um að engar breytingar yrðu gerðar á íslenskum lögum eða regluverki eða stofnanaumhverfi fyrr en að lokinni þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. Það var alveg skýrt samkomulag um það.

Ég hjó eftir því að í ræðu hv. þingmanns talaði hann um gjaldmiðilsmál. Nú veit ég ekki betur en að Sjálfstæðisflokkurinn, hans flokkur, hafi ályktað að krónan verði ekki framtíðargjaldmiðill Íslendinga. Eitt af því sem hangir á spýtunni um mögulega aðild að Evrópusambandinu er myntsamstarf við Evrópu, ekki endilega að taka beint upp evru heldur t.d. ERM II sem er myntsamstarf, sem er eins konar fordyri evrunnar og gæti líka hentað okkur. Mig langar að spyrja hv. þingmann hreint út og fá afdráttarlaus svör: Hver er (Forseti hringir.) framtíðargjaldmiðill Íslendinga í hans huga?