143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:26]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frá mínum bæjardyrum séð er framtíðargjaldmiðill Íslendinga íslenska krónan þar til annað verður ákveðið. Ég er ekki þeirrar skoðunar að einhliða upptaka annars gjaldmiðils sé skynsamlegur kostur. Ég er heldur ekki þeirrar skoðunar að aðild að Evrópusambandinu og evrópska myntsamstarfinu sé æskilegur kostur. Ég held að í fyrirsjáanlegri framtíð verðum við að lifa með kostum og göllum krónunnar. Um það eru skiptar skoðanir í mínum flokki, það er alveg rétt sem hv. þingmaður nefnir að um það hafi komið fram önnur sjónarmið. En þetta er mín persónulega skoðun. Ég lít hvorki á evrusamstarfið né aðrar lausnir sem upp hafa komið í umræðunni sem æskilegar eða skynsamlegar lausnir. Ég viðurkenni fúslega að í mínum bakgarði, í mínum flokki, eru afar skiptar skoðanir um þau mál.