143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Svo heppilega vill til að ræða mín var næst á dagskrá þannig að ég get aðeins haldið áfram þessari samræðu. Mér finnst þessi umræða um gjaldmiðilinn svolítið mikið vera tekin í skjóli fjármagnshafta. Gjaldmiðilskreppunni sem dundi á okkur Íslendingum er ekki lokið. Það hangir yfir okkur svokölluð snjóhengja sem nemur heilli landsframleiðslu sem er íslenskar krónur sem vilja leita í aðra gjaldmiðla en geta það ekki vegna laga í landinu sem heita fjármagnshöft. Ef við værum ekki með fjármagnshöft mundi krónan hrynja gjörsamlega með ömurlegum afleiðingum fyrir lífskjör í landinu. Þetta er staðan sem við erum í með krónuna og mér finnst svolítið djarft að mæla krónunni sérstaklega mikið bót í þessu ásigkomulagi. Ég hef ítrekað spurt um það í þessum þingsal hvort einhverjar áætlanir séu fyrir hendi um það hvernig eigi að leysa fjármagnshöftin og í rauninni takast á við gjaldmiðilskreppuna sem við frestuðum þegar hrunið dundi á okkur. Við höfum ekkert heyrt um þær áætlanir. Það virðist vera algjört ráðaleysi. Þess vegna finnst manni undarlegt að á sama tíma og það er algjört ráðaleysi gagnvart gjaldmiðilsvanda Íslendinga ætli menn sér í snarhasti að loka dyrunum, a.m.k. í bili og jafnvel um langt árabil, á mögulega aðild að myntsamstarfi Evrópu.

Það var rakið vel í skýrslu Seðlabankans sem kom út fyrir ríflega ári að það eru tveir meginkostir í gjaldmiðilsmálum, annars vegar króna og það verður erfitt að hafa hana frjálsa, erfitt að hafa hana án hafta. Það hefur mistekist hvað eftir annað í íslensku efnahagslífi og verið hörmuleg reynsla af því. Hins vegar er myntsamstarf við Evrópu sem er engin töfralausn svo maður taki það fram og hefur ýmsa ókosti líka í för með sér en þó meiri kosti en hitt. Það er ótrúlegt að menn vilji núna einhvern veginn loka þessari umræðu, algjörlega á svig við þessa greiningu og greiningu atvinnulífsins í landinu þannig að mér finnst þetta engan veginn faglegt, bara svo ég noti lítið lýsingarorð en ekki stórt um þessar áætlanir ríkisstjórnarinnar.

Margoft á undanförnum árum hefur komið upp sú umræða að við eigum að slíta þessum viðræðum. Ég var að rifja upp í huganum hvers eðlis rökin hafa verið, þau hafa verið margs konar. Fyrir ári vorum við í þessum þingsal og þingmaður eftir þingmann kom í pontu og lýsti því yfir að Evrópa brynni, að þar væri gríðarleg kreppa og við ættum ekkert erindi þangað inn. Við værum ekki Grikkland, þess vegna ættum við enga samleið með Evrópuþjóðunum. Það er ágætlega rakið í þessari skýrslu hvernig Evrópa hefur í sameiningu, í gegnum þær stofnanir Evrópusambandsins sem fyrir hendi eru, unnið bug á þessari kreppu og þau ríki sem áttu hvað verst eru núna jafnvel í miklum uppgangi. Ég held að í engu þeirra ríkja sem áttu í kreppuástandi hafi þeirri skoðun vaxið fiskur um hrygg að það ætti að segja sig úr Evrópusambandinu eða myntsamstarfi.

Margir þingmenn hafa haldið því fram að Evrópusambandið sé einhvers konar „þeir í Brussel“ sem ásælist auðlindir okkar. Það hefur tekið svolítinn tíma að segja fólki að Evrópusambandið er ekki samband þeirra í Brussel, 28 ríkja eða eitthvað slíkt, sem ásælist auðlindir Íslendinga. Svíar eiga sínar námur. Finnar eiga sína skóga. Íslendingar munu hafa fullan eignarrétt yfir sínum auðlindum áfram. Þetta er líka rakið ágætlega í skýrslu Hagfræðistofnunar.

Það var talað um að samningaviðræðurnar væru aðlögun og þess vegna bæri að hætta þeim. Enginn gat svarað spurningunni: Hvað felst í aðlöguninni? Hvaða reglum er verið að breyta, hvaða lögum og hvaða stofnunum út af samningaviðræðunum sem ekki er verið að breyta einfaldlega af því að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu? Enginn gat nefnt neitt. Það er meira að segja sérstakt ákvæði um það, sérstakt samkomulag, milli viðræðuhópanna ESB og Íslendinga um að Íslendingar muni ekki breyta neinu regluverki, engum stofnunum, fyrr en Ísland hefur samþykkt samning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi umræða þagnaði.

Það var talað um evrópskan her. Ég man eftir þeirri umræðu að við ættum aldrei að ganga inn í Evrópusambandið vegna þess að unga fólkið á Íslandi mundi þurfa að ganga í evrópskan her. Það þurfti að árétta það sérstaklega í kaflanum um öryggis- og varnarmál sem núna hefur verið lokað að Ísland fékk sérstaka yfirlýsingu þar um að Íslendingar starfræktu ekki her. Það var alveg sjálfsagt og auðsótt, enda engin krafa á nokkrum tímapunkti af hálfu Evrópusambandsins að við þyrftum að ganga í evrópskan her. Sú umræða þagnaði.

Ein veigamikil rök gegn því að fara í þessar viðræður og yfirleitt ganga í Evrópusambandið varða sjálfstæðið. Í gegnum tíðina hafa alltaf verið ansi stór rök að Ísland sé sjálfstæð þjóð og eigi ekki að gangast undir yfirþjóðlegt vald. Mér finnst þessi sjónarmið mjög hafa minnkað vegna þess að í millitíðinni hefur til dæmis komið út skýrsla á vegum norskra yfirvalda þar sem rakinn er lýðræðishallinn sem felst í því að vera aðili að Evrópska efnahagssvæðinu en ekki Evrópusambandinu. Norðmönnum sem eru töluvert stærri og ríkari en við gengur mjög erfiðlega að koma sínum sjónarmiðum á framfæri innan Evrópska efnahagssvæðisins, að fá aðgang að ákvörðunum sem Evrópusambandið er að taka um Evrópska efnahagssvæðið, og okkur hefur gengið mjög illa að fá aðgang að því. Við þiggjum hér tilskipanir frá Evrópusambandinu án þess að hafa aðgang að þeim.

Ég segi sem sjálfstæðissinni: Þetta finnst mér miklu verra. Ég vil hafa aðgang að lýðræðislegum stofnunum Evrópusambandsins og geta komið okkar sjónarmiðum á framfæri í leiðtogaráðinu, framkvæmdastjórninni, Evrópuþinginu og öðrum (Gripið fram í: Heyr, heyr.) stofnunum ráðsins. Mín rök fyrir því að fara mögulega inn í Evrópusambandið ef við náum góðum samningi eru fullveldisrök.

Svo hefur þessi málflutningur um sjálfstæði og fullveldi aldrei gengið erlendis. Við höfum aldrei getað sagt þannig að við meinum það að Danir séu ekki sjálfstæð þjóð, Finnar séu ekki sjálfstæð þjóð, Svíar séu það ekki og Frakkar ekki. Allt eru þetta þjóðir innan Evrópusambandsins.

Þessi málflutningur hefur mestmegnis verið til heimabrúks. Það eru hins vegar mjög áhugaverðir fletir á honum.

Núna er sagt: Ekkert er um að semja. Það er nýjasta útspilið. Menn vísa í skýrslu Hagfræðistofnunar. Það hefur alltaf legið fyrir að það yrði erfitt að semja um sjávarútvegsmál. Íslendingar hafa sagt það frá upphafi. Það hefur líka alltaf legið fyrir, mjög skiljanlega, af hálfu Evrópusambandsins að Evrópusambandið vill engar undanþágur. Evrópusambandið er samband ríkja um sameiginlegt regluverk. Með því að ganga inn í það njótum við góðs af því. Við fáum hinn frjálsa markað, aukið frelsi einstaklinga til að stunda viðskipti hvar sem er, svo dæmi sé tekið. Við getum mögulega aukið útflutning okkar og skapað fjölbreytt atvinnulíf. Við fáum ýmislegt í gegnum þetta sameiginlega regluverk. En í einu máli höfum við sagt: Við þurfum undanþágur, við þurfum sérlausn eða rúmar túlkanir innan regluverksins og það er í sjávarútvegsmálum. Við höfum veigamikil rök í þeim efnum. Við erum eina þjóðin sem byggir svona mikið á sjávarútvegi í Evrópu. Við erum eina þjóðin á norðurhjara veraldar sem veiðir að mestu leyti úr eigin stofnum. Sérstaðan er augljós.

Af hverju held ég að við getum náð góðum samningi byggðan meðal annars á þessari sérstöðu? Jú, aðrar þjóðir hafa náð samningum um sína sérstöðu, þær hafa gert það, dæmin eru fyrir hendi, og það eru þegar dæmi í aðildarviðræðum Íslendinga og Evrópusambandsins.

Yfirstjórn landbúnaðarmála innan Evrópusambandsins kom hingað og skoðaði hvernig landbúnaði er háttað á Íslandi. Hún komst að þeirri niðurstöðu að íslenskur landbúnaður væri allt öðruvísi en landbúnaður á meginlandi Evrópu. Því yrði auðsótt og í rauninni augljóst að það þyrfti að sníða sérlausnir að íslenskum landbúnaði. Þess vegna stendur núna í skýrslu Hagfræðistofnunar í raun og veru svart á hvítu að landbúnaðarkaflinn sé ekki lengur vandamál vegna þess að þó að tollar mundu falla niður yrði Íslendingum í lófa lagið, ef við túlkum það sem tjón, upp að bæta það á allan mögulegan hátt án athugasemda Evrópusambandsins.

Svo er því líka haldið fram að Evrópusambandið hafi einhverja samningsafstöðu. Það er rétt, en hvenær höfum við látið afstöðu viðsemjenda okkar stoppa okkur?

Ég vil rifja upp þegar við Íslendingar vorum að semja um EES-samninginn. Því var haldið fram að við gætum ekki náð góðri niðurstöðu í sjávarútvegsmálum sem snerist um að fjárhagslegt eignarhald á sjávarútvegsfyrirtækjum yrði íslenskt. Hannes Hafstein, aðalsamningamaður Íslendinga, (Forseti hringir.) lét ekki segja sér neitt í þeim efnum. Hann reykti sína pípu, (Forseti hringir.) hann fór á samningafundina, (Forseti hringir.) blés reyknum (Forseti hringir.) í augu og eyru viðsemjenda sinna (Forseti hringir.) og náði viðunandi lausn. (Forseti hringir.) Það getum við líka gert í þessu máli.