143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:40]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst að því síðasta. Ég tel að meðal þess sem við græðum á skýrslunni sem hér liggur fyrir sé að við sjáum hvernig bæði regluverk Evrópusambandsins og inntaka eða aðlögunarferli nýrra ríkja hefur breyst, hvernig aðstæður eru gerólíkar nú frá því sem var fyrir 20 árum þegar aðrar Norðurlandaþjóðir sóttu um aðild. Það er mjög vel rakið í skýrslunni að umhverfið er allt annað og þess vegna hæpið, svo ekki sé meira sagt, að líta til þeirra fordæma í því sambandi.

Varðandi aðra þætti vorum við hv. þingmaður að ræða gjaldeyrisvanda, myntmál og þess háttar í stuttum andsvörum áðan. Ég held að öllum sé ljóst að til þess að komast í Evrópusambandið eða komast í evrópska myntsamstarfið þyrftum við að taka til í gjaldeyrismálum sjálf fyrst, ég held að það sé alveg ljóst. Ég held að það sé líka alveg ljóst að sá tímabundni vandi sem ég vil líta svo á sem við eigum við að stríða í dag yrði hvort sem er að leysast á okkar eigin forsendum áður en til aðildar að myntbandalaginu kæmi.

Ég er hins vegar sammála hv. þingmanni um að hægt er að sjá bæði kosti og galla í sambandi við mismunandi myntir. Ég vil taka fram að í mínum huga er ekki trúaratriði hvaða mynt er notuð í landinu. Mynt er tæki en hefur ekki tilgang í sjálfu sér. Það er mín niðurstaða að þrátt fyrir að ótvírætt sé um að ræða galla við að hafa sjálfstæðan lítinn gjaldmiðil séum við þó betur sett með hann en að ganga í myntsamstarf þar sem við erum algjörlega undir það sett hvernig efnahagssveiflur eru í öðrum ríkjum miklu stærri og miklu áhrifameiri.