143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:49]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög athyglisverða umræðu um bólur, hrun og höft, sem eru vissulega áhyggjuefni allra þjóða um alla framtíð sem búa við það bankakerfi sem vestrænt samfélag hefur þróað, svokallað brotaforðakerfi. Ég komst að því, þegar ég fór að skoða þetta, að evran hafði ekki varið neitt land gegn bólum, hruni og höftum. Eina leiðin til að verja sig gegn því er skynsamleg efnahagspólitík. Að fara ógætilega með evru hefur jafnvel erfiðari og þungbærari afleiðingar en að fara illa að ráði sínu með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þetta sjáum við mjög berlega á Kýpur og í Grikklandi. Þessi ríki voru með evruna, en hún tryggði þeim svo sannarlega ekki skjól gegn bólum og hruni og höftum sem hafa gengið yfir Evrópusambandið. Ég segi nú kannski ekki að það hafi verið mikil höft í Grikklandi en á Kýpur þurfti að setja höft á tilflutning á evru og mér skilst að það hafi líka þurft að gera að einhverju leyti á Spáni og í Portúgal.

Þannig að það eina sem við getum gert er að vinna að stöðugleika og vera skynsamleg í okkar efnahagsaðgerðum. Við sjáum að ekki er búið að leysa vandamál evrópska myntsvæðisins. Þó að það hafi ekki liðast í sundur enn þá, er það ekki enn þá komið fyrir vind. Við sjáum að Pólverja, Svía, Breta og Dani dreymir ekki um að ganga inn í þetta myntbandalag. Ef við mundum ganga inn í evrópska myntsvæðið og taka upp þessa stöðugu mynd mundi hún alltaf taka mið af þörfum þungamiðju Evrópu, þ.e. Þýskalands og Frakklands, en ekki þessarar litlu íslensku þjóðar sem er með allt önnur efnahagsskilyrði en þær eru um fyrirsjáanlega framtíð. Við erum með ógrynni af auðlindum, orku, hráefnum, mikið af landi, unga þjóð, þau ríki eru alveg með þveröfugt af þessu öllu saman, þau þurfa aðra peningapólitík og aðra efnahagsstefnu en við og það að taka upp slíka mynt á þessu landi væri trygging fyrir því að okkur mundi líða verr en nokkru sinni.