143. löggjafarþing — 70. fundur,  27. feb. 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:52]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gjaldmiðill er ekki markmið í sjálfu sér, hann er tól. Þetta er frekar spurning um það hvaða tól við viljum velja til að koma efnahagslífi okkar á réttan kjöl. Það er algjörlega undir okkur komið, Íslendingum, það er alveg rétt, burt séð frá því hvaða tól við veljum, að klúðra málum. Og okkur væri alveg treystandi til að klúðra málum á Íslandi þó að við værum með evru. Auðvitað.

Ef evran hefði til dæmis í för með sér lægri vexti á Íslandi og stöðugleika væri það á ákveðinn hátt mögulega í anda íslensku þjóðarinnar að fara á lánafyllirí, taka mjög mikið af lánum, skuldbreyta mjög mikið og fara á einhvers konar neysluhafarí. Auðvitað þyrfti að koma böndum á það. Það var það sem gerðist hér í aðdraganda hrunsins, en það sem gerðist líka, ólíkt því sem gerðist í Evrópuríkjunum, er að hér var ofþensla, hér hrundu bankar, en hér var líka gjaldmiðilskrísa og dálítið heiftarleg og mjög mikil. Við erum ekki enn búin að leysa hana, henni var frestað. Hún stækkar bara vegna þess að við erum að átta okkur á því að það eru ekki bara erlendir krónueigendur sem vilja leita úr landinu með krónueignir sínar, yfir í aðra gjaldmiðla, heldur eru það líka íslenskir krónueigendur. Lífeyrissjóðirnir þurfa að komast út, svo að dæmi sé tekið, og almenningur mun þurfa að komast út. Ef þetta er ekki vitnisburður um það að krónan nýtur ekki trausts, þá veit ég ekki hvað.

Það sem væri fengið með evrunni væri að við værum að stunda viðskipti með gjaldmiðil sem nýtur trausts. Það mundi vissulega ekki styðja við einhæft atvinnulíf eins og krónan hefur (Forseti hringir.) að mörgu leyti gert. Það mundi, held ég, verða grundvöllur (Forseti hringir.) og forsenda fyrir mjög fjölbreyttu atvinnulífi og breyttu (Forseti hringir.) Íslandi.