143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

minning Matthíasar Bjarnasonar.

[15:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Nú verður minnst látins fyrrverandi alþingismanns. Matthías Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, lést á líknardeild Landspítala að morgni föstudagsins 28. febrúar sl. Hann var á 93. aldursári.

Matthías Bjarnason var fæddur á Ísafirði 15. ágúst 1921. Foreldrar hans voru hjónin Bjarni Bjarnason, sjómaður þar, síðar vegaverkstjóri, og Auður Jóhannesdóttir húsmóðir. Matthías lauk gagnfræðaprófi á Ísafirði árið 1937 og tveimur árum síðar verslunarprófi frá Verzlunarskóla Íslands.

Að námi loknu starfaði Matthías hjá fyrirtækjum bróður síns á Ísafirði en hóf fljótlega sjálfstæðan atvinnurekstur. Um líkt leyti varð Matthías framkvæmdastjóri Djúpbátsins og sinnti því starfi í aldarfjórðung. Um 1960 varð hann jafnframt framkvæmdastjóri Vélbátaábyrgðarfélags Ísfirðinga, samtals í hálfan annan áratug, og síðar enn fremur framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Kögurs. Hann og fjölskylda hans ráku í þrjá áratugi bókaverslun á Ísafirði, auk þess að sinna ýmsum umboðsstörfum þar.

Matthías Bjarnason hóf ungur afskipti af stjórnmálum, varð formaður félags ungra sjálfstæðismanna á Ísafirði rétt rúmlega tvítugur og síðar forustumaður samtaka sjálfstæðismanna á Ísafirði og í Vestfjarðakjördæmi. Hann var bæjarfulltrúi fyrir flokk sinn á Ísafirði 1946–1970 og forseti bæjarstjórnar 1950–1952. Matthías átti sæti í stjórnum atvinnufyrirtækja og samtaka atvinnurekenda, bæði á Vestfjörðum og á landsvísu, og var í stjórnum opinberra stofnana og sjóða á sviði atvinnumála. Þar á meðal sat hann lengi í stjórn Byggðastofnunar og var um tíma formaður hennar. Matthías átti sæti í Hrafnseyrarnefnd um árabil og var um tíma formaður hennar. Hann var í stjórnarskrárnefnd sem skipuð var 1979, formaður nefndarinnar frá 1983 fram yfir stjórnarskrárbreytingarnar 1995.

Matthías Bjarnason lét sögu og menningu þjóðarinnar sig miklu skipta, var mikill bókasafnari sjálfur og gaf út ritið Ísland frjálst og fullvalda ríki árið 1993 í tilefni 75 ára afmælis fullveldis. Hann ritaði mikið í blöð og tímarit og var ritstjóri Vesturlands á Ísafirði á sjötta áratug síðustu aldar. Þá var Matthías mikill náttúruunnandi, átti fágætt steinasafn og fuglasafn. Hann undi sér vel í vestfirskri náttúru og hvergi þó betur en í Trostansfirði þar sem hann og fjölskylda hans áttu sumarhús.

Eins og ljóst má vera af því sem rakið hefur verið af lífshlaupi Matthíasar Bjarnasonar bjó með honum mikill kraftur og pólitískur metnaður. Hann háði baráttu innan síns flokks fyrir forustusæti og varð alþingismaður í kosningunum 1963, fyrst landskjörinn en síðar þingmaður Vestfirðinga, allt til ársins 1995 er hann lét af þingmennsku, þá tæplega 74 ára gamall, og hafði þá setið á Alþingi í 32 ár, á 35 þingum alls. Á sumarþinginu 1991 var hann kjörinn forseti neðri deildar og sat síðastur manna í því embætti.

Eftir kosningarnar 1974 varð Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra og fór jafnframt með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, fram að nýjum kosningum 1978. Á þeim tíma mæddi mjög á honum útfærsla landhelginnar í 200 sjómílur og lausn deilunnar um það mál við Breta og Þjóðverja. Hann varð á ný ráðherra 1983 og fór þá í fjögur ár með samgönguráðuneytið en jafnframt í tvö ár með heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið og síðar viðskiptaráðuneytið. Hann lét af ráðherrastörfum í júlí 1987.

Matthías Bjarnason verður að teljast meðal helstu þingskörunga á sinni tíð. Hann var áhrifamikill þingmaður, bæði á þinginu og í sínum flokki, var ráðherra í mikilvægum málaflokkum lengi og réð miklu um úrslit mála á sínum þingferli. Hann var jafnan umdeildur stjórnmálamaður, harðskeyttur málafylgjumaður, en naut þrátt fyrir það almennrar virðingar fyrir reynslu og þekkingu á mönnum og málefnum. Hann stóð öflugan vörð um hagsmuni síns kjördæmis og kjósenda en reyndist líka dugmikill forustumaður þjóðarinnar á þeim sviðum þar sem hann var í æðsta valdasæti.

Matthías Bjarnason er minnisstæður öllum þeim sem honum kynntust. Hann var sterkur persónuleiki, stór í sniðum, frábær sögumaður og með óvenjuríka kímnigáfu, en skapmikill var hann þegar því var að skipta. Undir harðri skel var viðkvæm lund, og bóngóður var hann þeim sem til hans leituðu. Landið, sagan og þjóðin áttu djúpar rætur í hjarta hans.

Ég bið þingheim að minnast Matthíasar Bjarnasonar með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]