143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:16]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ég vil lýsa yfir vonbrigðum með það að nefndavika var ekki nýtt eins og til stóð til að halda fundi til þess að leita sátta í mjög erfiðu deilumáli sem blasir við í þinginu, sem er tillaga um að draga til baka aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Það var gert samkomulag um að nýta nefndavikuna til þess og það bárust engin fundarboð. Nú berst hér fundarboð frá forseta úr ræðustóli án þess að nokkur hafi verið látinn vita af því. Mér finnst þetta ókurteisi allt saman. Við í Bjartri framtíð lögðum fram sáttatillögu. Við viljum klára viðræðurnar vissulega, við viljum helst að þjóðin gangi í Evrópusambandið á grunni góðs samnings, en við réttum fram sáttarhönd. Mér finnst það ókurteisi að alla síðustu viku var þessi sáttavilji algjörlega virtur að vettugi.

Gott og vel. Það er fundur núna. Klukkan hvað er hann, virðulegur forseti? Ég þarf að sækja barnið á leikskólann og þarf að vita það. Fyrst þessi samskipti fara hér fram í ræðustól væri kannski ágætt að vita klukkan hvað hann verður. Og er þetta samráðið sem verður hér í þinginu, að við gerum þetta hérna í ræðustól?