143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:19]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé alveg rétt að við hefðum eins og oft áður getað nýtt tímann betur, en við breytum því ekki úr því sem komið er. Ég fagna því að formenn stjórnmálaflokkanna sem sitja á Alþingi ætli að setjast niður og fara yfir málið, ég held að það sé afskaplega mikilvægt. Það er skynsamlegt að þeir fari yfir þessi mál og ég held að allir séu á því að það skipti máli að málsmeðferðin verði góð í þessu efni. Horft er til þess hvernig okkur gengur að vinna úr þessu, því að þrátt fyrir að við séum ósammála um ýmislegt held ég að það sé ekki góður bragur á því að við séum sífellt að takast á um formið.

Þess vegna vonast ég bara til þess að þeir sem hér hafa talað muni setjast niður með gleði, bjartsýni og jákvæðni í hjarta og finna góðan flöt á málinu, því að ég veit að allt þetta fólk getur gert það ef það vill.