143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er að opnast enn einn kaflinn í hinni klúðurslegu framvindu mála að því er varðar Evrópusambandsmálin af hendi ríkisstjórnarflokkanna. Nú er boðað til fundar úr forsetastóli, fundar sem hefði átt að vera búið að halda fyrir löngu, um samráð sem boðað var hér af forsetastóli 27. febrúar 2014. Nú er kominn 10. mars.

Ég er mjög hugsi yfir því virðingarleysi sem forusta ríkisstjórnarflokkanna sýnir Alþingi. Mér finnst eiginlega grátbrosleg sú staða sem við erum komin í. Klukkan hvað á að halda þennan fund, virðulegur forseti? Er ekki rétt að aðrir dagskrárliðir séu þá teknir fram fyrir og við höldum hér sæmilegri virðingu í framvindu dagskrár þingsins (Forseti hringir.) og setjum þessa dagskrárliði til hliðar á meðan hæstv. forsætisráðherra lætur (Forseti hringir.) svo lítið að tala við forustu annarra stjórnmálaflokka?