143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:26]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég tel að það yrði bragur að því og mundi greiða fyrir þingstörfum ef hæstv. forseti mundi úr forsetastóli hirta hæstv. forsætisráðherra. Ég tel að hæstv. forsætisráðherra hafi bæði sýnt forseta og þinginu dónaskap með því að gera enga tilraun til að fara að þeim leiðbeiningum og þeim óskum sem hæstv. forseti beindi til hans þegar hann kvaddi okkur hér fyrir upphaf nefndaviku og lagði það alveg skýrt fyrir að það væri vilji hans að forustumenn ríkisstjórnarinnar ræddu við forustumenn stjórnarandstöðunnar um framhald málanna.

Hæstv. forsætisráðherra kaus hins vegar, til að nota orð hæstv. fjármálaráðherra, að fara út og suður. Hann var á flandri um heiminn í stað þess að sinna verkskyldum sínum hér heima og reyna að fá einhvers konar hljóðbotn í þá umræðu sem hér stendur. Ég tel að það væri þarft verk að kenna þessum drengjum mannasiði einu sinni.