143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:28]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. 27. febrúar, á þingfundi, ræddi hæstv. forseti um það að á næstu dögum í nefndaviku yrði „leitað hófanna“, eins og hann komst að orði, „til að vita hvort hægt sé að reyna að greiða fyrir umræðu málsins eftir því sem kostur er í framhaldinu.“ Nú veit ég ekki hvort hófanna hafi verið leitað eða hvort þeir hófar hafa yfirleitt fundist en alla vega erum við komin hér núna að lokinni nefndaviku og málið er komið á dagskrá án þess að nokkurt samkomulag hafi verið um framhald þess.

Ég vil segja að ég vil standa með forseta Alþingis í þessu efni eins og hann lagði það upp fyrir nefndaviku. Mér finnst eðlilegt að málið komi ekki til umræðu fyrr en samkomulag hefur tekist um hvernig eigi að fara með það eða að menn geri a.m.k. ærlega tilraun til að leita hófanna og sjá hvort menn geti komist að samkomulagi um framhald málsins. Það er gagnslaust að vera með málið á dagskrá fyrr en það hefur verið gert.