143. löggjafarþing — 71. fundur,  10. mars 2014.

fundur forseta með formönnum þingflokka o.fl.

[15:31]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Það kemur nokkuð á óvart sá harði tónn sem kemur fram í máli einstakra þingmanna [Kliður í þingsal.] (Gripið fram í: Já, ókei. …) og ég verð að segja alveg eins og er að það getur vart verið góður grunnur undir málefnalega umræðu sem ég hélt (Gripið fram í: Það er á ábyrgð forsætisráðherra.) að ætti að fara fram hér.

Ég er líka nokkuð undrandi á því að þingheimur, þingmenn komi hér upp í röðum, hver á fætur öðrum og fari fram á það að framkvæmdarvaldið fari að hlutast til um störf þingsins. Ég tek algerlega undir með ágætri tillögu forseta um að boða til fundar formanna flokkanna til að þreifa á málinu en á meðan getur þingið auðvitað starfað. Ég er reyndar ekki með mjög langa þingreynslu en ég hef aldrei vitað til þess að þingmenn fari fram á að framkvæmdarvaldið sé að hlutast til um mál sem eru í þinglegri meðferð. (Gripið fram í.) Það kemur mér nokkuð á óvart.

Svo verð ég að segja alveg eins og er að skilaboð eins, tveggja, þriggja, jafnvel fimm eða tíu er alveg nóg. Allt annað er merki um að (Forseti hringir.) menn séu hér í ómálefnalegri vinnu við að halda (Forseti hringir.) hér öðrum málum frá dagskrá, það er svokallað málþóf. (Gripið fram í.)